CSA Czech Airlines, bættist nýverið í hóp viðskiptavina íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Calidris. Calidris sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir flugfélög, sem hjálpa þeim að bæta sætanýtingu m.a. með því að koma í veg fyrir falskar og gallaðar sætabókanir.

Á meðal viðskiptavina Calidris eru British Airways, Virgin Atlantic og Cathay Pacific, auk Iceland Air. Edita Postávková, yfirmaður markaðsþróunarsviðs CSA Czech Airlines, tjáði sig um ástæður þess að Calidris varð fyrir vali félagsins þegar kom að því að bæta tekjur þess. “Við vildum auka verðmæti þess hugbúnaðar sem við notum til að vakta tekjur, með því að finna fleiri falskar bókanir og geta sjálf stjórnað ferlinu, á hraðvirkan og markvissan hátt. Hugbúnaður Calidris veitir starfsfólki CSA Czech Airlines miklu betri tækifæri til að koma í veg fyrir tekjuleka. Núna er fljótlegt að breyta verkferlum, sannreyna þá og setja þá af stað," segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að bætt þjónusta og öryggi voru jafn mikilvæg fyrir tékkneska flugfélagið og samstarfið við Calidris við uppsetningu búnaðarins og framkvæmd breytinga hafa gengið vonum framar. Starfsfólk CSA Czech Airlines fékk nauðsynlega þjálfun og kennslu við notkun búnaðarins í Prag, þar sem þeim var gert kleift að kynna sér hugbúnaðinn að fullu.

Auk fastra þátta í þjónustu Calidris fóru Tékkarnir fram á sérhæfða þætti, sem fólu í sér meðhöndlun hópbókanna og samskipti við ferðaskrifstofur í því sambandi.

“Það er okkur sönn ánægja að bjóða CSA Czech Airlines velkomið í hóp viðskiptavina,” segir Magnús Ingi Óskarsson, framkvæmdastjóri Calidris. “Þjónustudeild Calidris vinnur náið með CSA Czech Airlines til að tryggja það að þróunin frá fyrra kerfi, yfir í það nýja fari fram á sem þægilegastan hátt, og er sú vinna vel á veg komin.”

Sífellt fleiri flugfélög nýta sér þjónustu Calidris. CSA Czech Airlines er helsta flugfélag Tékka og hefur hlotið fjölda viðurkenninga á alþjóða vettvangi.