Gengi Bandaríkjadals náði sögulegu lágmarki gegn evru á mörkuðum í gær og hafði ekki verið lægra gegn breska sterlingspundinu í tuttugu og sex ár.

Veiking dalsins er rakin til væntinga um að seðlabanki Bandaríkjanna muni ekki breyta stýrivöxtum á næstunni á meðan þeir fari hækkandi í öðrum hagkerfum. Auk þessa hefur óvissa vegna hræringa á markaði með fasteignalán til lántakenda með slæmt lánshæfismat grafið undan stöðu dalsins.

Gengi dalsins gegn evru fór í 1,3844 á gjaldeyrismörkuðum í gær og hafði aldrei verið lægra. Dalurinn styrktist lítillega þegar líða tók á daginn. Sömu sögu er að segja um gengi dalsins gagnvart breska pundinu en það fór niður í 2,0603.

Nýsjálenski dalurinn styrktist enn frekar gagnvart þeim bandaríska og fór gengið í fyrsta sinn yfir 0,8 eftir að gjaldmiðillinn var látinn fljóta 1985. Fastlega er búist við að stjórn nýsjálenska seðlabankans hækki vexti um 0,25% í dag og verði þeir þar með 8,25%.