Flugfélagið Delta hagnaðist meira á fjórða og síðasta ársfjórðungi 2021 en von var á, um 22 sent á hvern hlut í félaginu. Greiningaraðilar höfðu spáð hagnaði upp á 14 sent á hlut, að meðaltali. Þetta kemur fram í grein Reuters .

Félagið segir í tilkynningu að vegna Ómíkron faraldursins verði tap á rekstrinum í janúar og febrúar, sem muni leiða til taps á fyrsta ársfjórðungi 2022. Hins vegar áætlar félagið að ferðahugur muni aukast strax í lok febrúar sem muni leiða til hagnaðar á hinum þrem ársfjórðungunum. Í grein Reuters segir að félagið búist heilt yfir við hagnaði á árinu.

Glen Hauenstein, forseti félagsins, sagði í símtali við fjárfesta að vanalega sé minnst að gera á fyrsta ársfjórðungi og því sé það hentugasti tíminn af öllum fyrir nýja bylgju af kórónuveirunni. Ed Bastian forstjóri félagsins segist bjartsýnn fyrir komandi ár. Hann býst við því að viðskiptaferðalög muni aukast mikið um miðjan febrúar.

Samkvæmt útreikningum félagsins er áætlað að tekjurnar á fyrsta ársfjórðungi verði á bilinu 72-76% af sama ársfjórðungi 2019. Auk þess gerir félagið ráð fyrir því að fjárfestingarútgjöld fyrsta ársfjórðungs 2022 verði um 70% hærri í samanburði við fjórða ársfjórðung 2021.