Ekki verður gefin út ákæra á hendur DNB bankanum vegna þáttar hans í málefnum Samherja og dótturfélaga á suðvesturströnd Afríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum til Bors-kauphallarinnar þar ytra.

Undir lok nóvember 2019, um svipað leyti og fjallað var um meint mútu- og fjármunabrot Samherja í Namibíu og Angóla, hóf Økokrim, norka efnahagsbrotalögreglan, rannsókn á bankanum. Bankinn hafði þjónustað Samherja og voru vísbendingar um að pottur hefði verið brotinn hvað mögulegt peningaþvætti varðaði.

Í tilkynningunni segir að Økokrim hafi upplýst bankann um að rannsóknin hafi verið felld niður þar sem niðurstöður hennar hefðu ekki gefið tilefni til útgáfu ákæru á hendur félaginu sjálfu.

„Við höfum átt uppbyggilegt samstarf við Økokrim á meðan rannsóknin stóð yfir og höfum deilt með þeim öllum upplýsingum í okkar vörslu sem gætu tengst málinu,“ er haft eftir Thomas Midteide, yfirmanni hjá bankanum í tilkynningu.

„Samherji fagnar þessari niðurstöðu enda hefur félagið ávallt haldið því fram að ásakanir vegna viðskipti tengdra félaga við DNB hafi verið tilhæfulausar. Mjög veigamikill þáttur í umfjöllun Ríkisútvarpsins um útgerðina í Namibíu varðaði umrædd viðskipti við DNB bankann. Þar voru upplýsingar um áreiðanleikakönnun bankans slitnar úr samhengi og lánveitingar, sem voru framkvæmdar til að tryggja að greiðslur bærust skipverjum á réttum tíma, gerðar tortryggilegar. Mjög alvarlegar ásakanir voru settar fram um þessi viðskipti, meðal annars að þau hafi falið í sér peningaþvætti,“ segir í tilkynningu frá Samherja vegna þessarar niðurstöðu Økokrim.