*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 16. júlí 2021 11:05

Dohop tengir easyJet og Deutsche Bahn

Viðskiptavinir easyJet og Deutsche Bahn geta nú tengt saman bókanir með tækni Dohop leitarvélarinnar.

Ritstjórn
Kristján Guðni Bjarnason, tæknistjóri Dohop, og Ingi Fjalar Magnússon, vörustjóri.
Aðsend mynd

Breska flugfélagið easyJet og þýsku járnbrautirnar Deutsche Bahn (DB) opnuðu nýja sameiginlega bókunarvél á Brandenborgarflugvellinum í Berlín í gær. Viðskiptavinir félaganna tveggja geta nú tengt saman bókanir með tækni íslenska félagsins Dohop sem knýr „Worldwide by easyJet" kerfið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er stórt skref fyrir Dohop að tengja saman easyJet og Deutsche Bahn. Við höfum unnið mjög náið með þessum fyrirtækjum sem eru bæði leiðtogar á sviði sjálfbærni í ferðaþjónustu.

Þessi nýja lausn er skref í átt að aukinni sjálfbærni í ferðalögum og mun koma til með að móta ferðamáta í framtíðinni. Við erum mjög stolt af lausninni sem er stærsta nýjung Dohop til þessa," segir Kristján Guðni Bjarnason, tæknistjóri Dohop, í tilkynningunni.

Sjá einnig: Norwegian og easyJet semja við Dohop

Samstarf easyJet og Deutsche Bahn er í takt við þær breytingar sem eru að eiga sér stað innan Evrópu er varða aukna fjárfestingu í járnbrautakerfum álfunnar. Með þessari nýjung verður auðveldara að tengja saman bókanir og ferðast um járnbrautakerfi Þýskalands.

Íslendingar geta einnig notið góðs af þessum nýju tengimöguleikum, þar sem easyJet flýgur til Berlínar frá Keflavík.

Stikkorð: Dohop