Hráolíuverð hefur hækkað um meira en 4% það sem af er degi eftir að samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC+ tilkynntu að þau hyggðust mögulega draga úr framleiðslu sem nemur einni milljón olíutunna á dag. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.

Þetta yrði annar mánuðurinn í röð sem samtökin draga úr framleiðslu, en dregið var úr framleiðslu í september sem nemur 100 þúsund tunnum á dag. Hráolíuverð hefur lækkað talsvert á undanförnum fjórum mánuðum.

Brent hráolíuverð hefur hækkað um 4,3% það sem af er degi og er tunnan komin í 89 Bandaríkjadali. Þá hefur verð á WTI hráolíu hækkað um 4,8% það sem af er degi og er tunnan komin í 83 Bandaríkjadali.