Martin J. St. George hefur dregið framboð sitt til stjórnar í Icelandair Group til baka , samkvæmt tilkynningu Icelandair . Engin ástæða er tilgreind. Þar með er ljóst að átta verða í kjöri um fimm stjórnarsæti en ekki níu. Stjórnarkjörið fer fram á aðalfundi félagsins á föstudaginn.

Martin var síðastur frambjóðenda til að gefa kost á sér í stjórnarkjörinu en það gerði hann fyrir síðustu helgi. Hann hóf störf sem framkvæmdastjóri hjá LATAM -flugfélaginu í Suður-Ameríku á síðasta ári. Áður var hann í framkvæmdastjórateymi jetBlue og United Airlines .

Sækjast eftir endurkjöri:

Úlfar Steindórsson hefur setið í stjórn Icelandair Group frá árinu 2010 og verið stjórnarformaður frá árinu 2017. Hann er forstjóri Toyota á Íslandi.

Svafa Grönfeldt hefur setið í stjórn félagsins í tvö ár og er varaformaður. Hún hefur m.a. starfað sem fram­kvæmda­stjóri hjá Alvogen og rektor Háskól­ans í Reykja­vík.

Guðmundur Hafsteinsson hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2018. Hann er fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant.

John F. Thomas kom nýr í stjórn Icelandair í fyrra. Hann var forstjóri Virgin Australia Airlines og síðar ráðgjafi fjölmargra flugfélaga.

Nina Jonsson kom ný í stjórn Icelandair í fyrra. Hún er ráðgjafi hjá Plane View Partners og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Air France-KLM.

Nýir frambjóðendur:

Steinn Logi Björnsson fyrrum forstjóri Bláfugls. Hann starfaði hjá Icelandair frá 1985 til 2005 m.a. sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.

Sturla Ómarsson stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og starfaði sem flugstjóri hjá Icelandair í um aldarfjórðung.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands. Áður starfaði hún m.a. sem stöðvarstjóri hja Icelandair í Danmörku og markaðsstjóri Iceland Express.

Fjallað eru m stjórnarkjörið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið.