Á öðrum ársfjórðungi 2014 voru að meðaltali 11.300 manns án vinnu og í atvinnuleit, eða 5,9% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 6% hjá konum og 5,9% hjá körlum. Atvinnulausum fækkaði um 0,9 prósentustig samanborið við sama ársfjórðung í fyrra, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar .

Lítillega hefur dregið úr langtímaatvinnuleysi, þ.e. þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur. Á öðrum ársfjórðungi 2014 höfðu um 1.800 manns verið langtímaatvinnulausir, eða 0,9% vinnuaflsins, samanborið við 1,1% á öðrum ársfjórðungi 2013.

Á öðrum ársfjórðungi 2014 voru að jafnaði 189.900 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði og fjölgaði um 0,8% frá sama tíma ári áður. Jafngildir þetta um 83,1% atvinnuþáttöku. Þar af voru 178.700 manns starfandi.

Fólki utan vinnumarkaðar hefur fækkað um 1,6% frá fyrra ári eða um 600 manns.