Hagnaður félagsins fyrir skatta var 568,4 milljónir króna (4,3 milljónir punda) á öðrum fjórðungi. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 817,3 milljónum króna (6,2 milljónir punda) á móti 771,6 milljónum króna (5,9 milljónir punda) á sama tímabili í fyrra. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum var 17,2% samanborið við 15,3% árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) var 694,2 milljónir króna (5,3 milljónir
punda) samanborið við 624,6 milljónir króna (4,8 milljónir punda) á síðasta ári og jókst um 11,1 % milli ára. Hagnaður tímabilsins nam 412,9 milljónum króna (3,1 milljónir punda) í samanburði við 437,5 milljónir króna (3,3 milljónir punda) á síðasta ári að frádregnum söluhagnaði vegna sölu sjávarútvegshluta félagsins.

Rekstur Bakkavör Group á öðrum ársfjórðungi 2004 var í samræmi við væntingar stjórnenda félagsins. Innri vöxtur félagsins í undirliggjandi rekstri var 17% á tímabilinu og nam sala félagsins í öðrum ársfjórðungi 4,8 milljörðum króna (36.3 milljónir punda). Sala á tilbúnum réttum (ready meals) og meðlæti (accompaniments) hefur gengið vel sem af er sumri og jókst salan í tilbúnum réttum um 33% í júní miðað við júní í fyrra og 51% aukning var á sölu meðlætis í júnímánuði samanborið við árið í fyrra.