Í desember 2011 var 61 kaupsamningi og afsölum um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og 69 utan þess. Á sama tíma í fyrra var 71 kaupsamningi þinglýst á höfuðborgarsvæðinu og 57 utan þess. Þrátt fyrir færri samninga á höfuðborgarsvæðinu var heildarfasteignamat seldra eigna mun meiri í desember 2011 eða um sjö milljarða samanborið við tæpa fjóra milljarða árið áður.

Heildarfasteignamat seldra eigna á höfuðborgarsvæðinu var 6.861 milljón króna en 1656 milljónir króna utan þess. Af þessum samningum voru 30 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru 28 kaupsamningar um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu skráðir í kaupskrá og 21 utan þess. Þetta kemur fram hjá Þjóðskrá Íslands.

Heildarupphæð samninga á höfuðborgarsvæðinu var 1.181 milljón króna og fasteignamat þeirra eigna sem samningarnir fjölluðu um 1.091 milljón króna. Heildarupphæð samninga utan höfuðborgarsvæðisins var 749 milljónir króna og fasteignamat þeirra eigna sem samningarnir fjölluðu um 472 milljónir króna. Af þessum samningum voru 13 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.