*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 19. janúar 2014 15:30

Dropbox metið á 10 milljarða

Mat á virði fyrirtækisins hefur hækkað úr 4 milljörðum bandaríkjadollara í 10 milljarða

Ritstjórn

Tæknifyrirtækið Dropbox lauk 250 milljóna dollara fjármögnun Vestanhafs í lok vikunnar. Stærsta eignastýringarfyrirtæki heims, BlackRock, leiddi fjármögnina, en talið er að um síðustu umferð söfnunar sé að ræða hjá Dropbox áður en fyrirtækið fer á markað. Breska dagblaðið The Telegraph greinir frá þessu.

Mat á virði Dropbox hefur snarhækkað frá því að fyrirtækið lauk fyrri umferð fjármögnunar árið 2011, en þá var fyrirtækið talið 4 milljarða bandaríkjadollara virði. Fyrirtækið hafði þá safnað 257 milljónum dollara frá fjárfestum, og hefur því alls tekist að safna rúmlega 500 milljónum dollara fyrir útboð.

Greiningaraðilar í Bandaríkjunum höfðu spáð því að verðmatið á Dropbox myndi tvöfaldast frá því sem áður var, úr 4 milljörðum í 8 milljarða, en núverandi 10 milljarða mat á fyrirtækinu gerir ráð fyrir talsverðum vexti fyrirtækisins á næstu árum. Dropbox er því verðmætasta tæknifyrirtækið í Kaliforníu í dag sem stefnir á hlutafjárútboð. Velta Dropbox árið 2012 er metin á um 110 milljónir bandaríkjadollara.

Dropbox var stofnað í San Francisco árið 2007 af Drew Houston og Arash Ferdowsi. Um 45 milljónir manna í 175 löndum nota þjónustu fyrirtækisins.

Stikkorð: Dropbox