Eden ehf. í Hveragerði hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og auglýst eftir kröfum í búið.

Eden hefur verið rekið í rúma hálfa öld í Hveragerði og var um langt skeið eitt helsta aðdráttarafl ferðafólks sem þangað kom. Suðrænn gróður, páfagaukar og fleiri dýr settu svip sinn á staðinn.

Húsið var selt nauðungarsölu í sumar

Bragi Einarsson stofnaði og rak staðinn um áratuga skeið en seldi hann árið 2006. Kaupendurnir hafa rekið það síðan.

Fyrirtækið er í yfir fjögur þúsund fermetra húsnæði og stendur á 13.500 fermetra lóð. Húsnæðið var selt nauðungarsölu í sumar og var það Sparisjóður Suðurland sem leysti eignina til sín.

Bjarki Már Baxter, lögmaður og skipaður skiptastjóri, segir frest til að skila kröfum í búið vera tveir mánuðir, þ.e. til síðari hluta októbermánaðar. Hann segir ljóst að litlar eða engar eignir séu í búinu. Starfsemi sé hins vegar á áfram í húsnæðinu.

„Nú er reksturinn leigður út, enda hagsmunir Hvergerðinga þeir að þarna verði áfram verslunar- og veitingarekstur. Eden er sennilega eitt þekktasta kennileiti Hveragerðis og hefur verið þarna eins lengi og elstu menn muna,” segir hann.

Sælgæti, myndverk og blóm

Í Eden hafa starfað á fjórða tug manna að sumarlagi en allnokkuð færri yfir vetrartímann.

Þar hefur m.a. verið rekin ís- og sælgætissala, kaffihús, haldnar myndlistarsýningar og tónleikar, seldir íslenskir minjagripir ásamt blómum og öðrum plöntum o.fl.