Samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Bragasyni, framkvæmdastjóra vátryggingasviðs hjá VÍS, eru það þeir sem ekki eru með kaskótryggð ökutæki eða eru ekki með innbústryggingu sem verða fyrir hvað mestu tjóni af völdum jarðskjálftans á Suðurlandi á föstudaginn. Einnig gætu fyrirtæki orðið fyrir nokkru tjóni þar sem tjón af völdum rekstrarstöðvunar fæst ekki bætt.

Viðlagatrygging er innheimt af tryggingafélögum og hana greiða allir sem eru með lögboðna brunatryggingu. Hún tryggir menn fyrir tjóni sem verður á húseignum þeirra. Tjón á innbúi, lausafjármunum og öðru, er bætt ef menn hafa keypt innbústryggingu, en hún er ekki skyldutrygging þó svo að þorri manna hafi slíka tryggingu. Því gætu einhverjir þurft að bera tjón sitt á lausafjármunum sjálfir hafi þeir ekki keypt innbústryggingu.

Kaskótrygging ökutækis bætir ekki tjón af völdum jarðskjálfta, nema grjóthrun valdi tjóninu. Þannig fæst ekki bætt tjón vegna þess að mótorhjól hafa fallið á hliðina, vegna lausra hluta sem detta á bifreið o.s.frv. Því gæti þónokkur fjöldi bifreiðaeigenda hafa orðið fyrir tjóni í skjálftanum nýlega.

Viðlagatrygging bætir loks ekki tjón af völdum rekstrarstöðvunar. Samkvæmt upplýsingum frá Friðriki er lítið um að fyrirtæki séu tryggð fyrir slíku tjóni og því bera þau tjón sitt sjálft verði þau fyrir rekstrarstöðvun vegna skjálftans.