Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.094,3 milljörðum króna í lok nóvember og hækkuðu um 3 milljarða á milli mánaða. Innstæður í Seðlabankanum hækkuðu um 4 milljarða króna.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Þar kemur einnig fram að kröfur á lánastofnanir námu 97,6 milljörðum króna í lok nóvember og lækkuðu um 649 milljónir króna. Útlán og markaðsverðbréf námu 947,4 milljörðum króna í lok nóvember og hækkuðu um 6,6 milljarða á milli mánaða. Aðrar innlendar eignir lækkuðu um 6,9 milljarða króna.

Þá nam verðbréfaútgáfa 901,4 milljörðum króna og hækkaði um 5,8 milljarða í mánuðinum. Innlendar lántökur námu 36 milljörðum króna og lækkuðu um 119 milljónir króna. Erlendar lántökur hækkuðu um 1,1 milljarð og námu 91,8 milljarði króna í lok nóvember. Aðrar skuldir lækkuðu um 862 milljónir króna. Eigið fé ýmissa lánafyrirtækja nam 43,4 milljörðum króna og lækkaði um 2,9 milljarða  í nóvember.

Yfirlit yfir eignir og skuldir fjármálafyrirtækja í slitameðferð eða nauðasamningum eru birtar sérstaklega í hagtölum bankans. Þar kemur fram að eignir þeirra námu 2.998 milljörðum króna í lok 2. ársfjórðungs 2011 en skuldir þeirra námu 9.552 milljörðum króna á sama tíma. Eigið fé þeirra var því neikvætt um 6.554 milljarða króna í lok 2. árfjórðungs 2011. Fjöldi fjármálafyrirtækja í slitameðferð eða nauðasamningaferli er breytilegur eftir tímabilum. Þegar starfsleyfi þeirra er afturkallað af FME detta viðkomandi aðilar út úr hagtölum SÍ um fjármálafyrirtæki.