Strætó tapaði um 186 milljónum króna árið 2023 samkvæmt drögum að óendurskoðuðu ársuppgjöri félagsins sem fylgir nýjustu fundargerð stjórnar.

Eigið fé Strætós var því neikvætt um 176 milljónir í árslok 2023 en til samanburðar námu eignir félagsins 3,2 milljörðum.

Framlag hins opinbera 7 milljarðar í fyrra

Rekstrartekjur Strætós námu 11,1 milljarði og jukust um 16% frá fyrra ári. Þar af voru tekjur af fargjöldum um 2.047 milljónir sem er 18% aukning milli ára, auk þess að vera yfir áætlun. Innstig voru um 12,6 milljónir í fyrra og hafa aldrei mælst meiri höfuðborgarsvæðinu.

Rekstrarframlög eignaraðila, þ.e. sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins 6,1 milljarði sem er tæplega eins milljarðs aukning frá fyrra ári. Auk þess var framlag ríkissjóðs 906 milljónir á árinu 2023, líkt og árið áður.

Í kynningu Strætós kemur fram að eigendur félagsins hafi reitt fram aukaframlag til rekstrar upp á 520 milljónir á árinu og annað 352 milljóna aukaframlag til greiðslu skaðabóta.

Landsréttur staðfesti í nóvember sl. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað á um að Strætó þyrfti að greiða hópbifreiðafyrirtækinu Teiti Jónassyni ehf. skaðabætur vegna akstursútboðs frá 2010. Strætó var gert skylt að greiða tæplega 205 milljónir króna með skaðabótavöxtum frá 29. mars 2010 til 12. nóvember 2020, auk dráttarvaxta frá þeim degi.

Strætó gjaldfærði 322 milljónir árið 2022 vegna málsins. Stjórn strætó ákvað í lok síðasta árs að leita ekki eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Veltufé frá rekstri Strætós var jákvætt um 248 milljónir árið 2023 en til samanburðar var það neikvætt um 419 milljónir árið áður. Sem hlutfall af tekjum var veltufé frá rekstri 2% í fyrra en neikvætt um 4% árið 2022.

Rekstrargjöld 600 milljónum umfram áætlun

Rekstrargjöld námu 10,9 milljörðum króna og jukust um 9,3% milli ára. Rekstrargjöld voru 612 milljónum umfram áætlun. Stærsti kostnaðarliðurinn var rekstur vagna og aðkeyptur akstur sem nam 4,9 milljörðum og jókst um 8% milli ára. Það skýrist m.a. af háum viðhalds- og viðgerðarkostnaði vegna aldurs flotans ásamt hækkun olíuverðs.

Þá jukust laun og launatengd gjöld um 348 milljónir milli ára, eða um 9%, og námu 3,4 milljörðum. Ársverk voru 239 samanborið við 247 árið áður. Hækkun launakostnaðar er rakin til kjarasamningsbundinna hækkana.

Strætó tilkynnti í þessum mánuði að félagið hefði móttekið níu nýja rafvagna af tegundinni Yes-EU (CRRC 8m). Þeir koma þeir frá Kína „eins og eldri rafvagnar Strætó sem hafa reynst vel“. Engin olíumiðstöð er í vögnunum og verða þeir kynntir með rafmagni.