Yfirvöld í Belgíu hafa samþykkt að þjóðnýta eignir Dexia í landinu og leggja bankanum til 90 milljarða evra til þess að fjármagna aðrar skuldbindingar sínar. Þá verður útibú bankans í Belgíu keypt á 4 milljarða evra og samkvæmt FT er það fyrsta skrefið í átt að því að búta bankann sem lenti í miklum lausafjárvanda á dögunum.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku gerðu sparifjáreigendur áhlaup á bankann í vikunni en vandi bankans stafar þó öðru fremur af því að hann hefur lánað mikið fé til vandræðaríkja S-Evrópu og stendur frammi fyrir miklum afskriftum vegna þessa. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dexia kemst í vanda en stjórnvöld í Belgíu og Frakklandi þurftu einnig að leggja bankanum til fé árið 2008.

Af þeim 90 milljörðum sem bankinn fær í ríkisábyrgðir nú munu Belgar fjármagna 60,5%, Frakkar 36,5% og Lúxemborg 3%.