Hf. Eimskipafélag Íslands hefur samið við skuldabréfaeigendur í flokkunum AVION061 og AVION062, útgefin að verðmæti 10 milljarða ISK um frestun vaxtagreiðslna.

Eimskip hefur þegar fengið undirritað samþykki um 75% skuldabréfaeigenda þessara flokka og áfram er unnið að því að ná sama samkomulagi við þann hluta eigenda skuldabréfa sem ekki hafa gengið frá samningi við félagið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipafélaginu en félagið hefur undanfarna mánuði unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu með innlendum og erlendum ráðgjöfum eins og áður hefur komið fram. Stór þáttur í þeirri endurskipulagningu er sala á eignum félagsins í Norður-Ameríku.

Í tilkynningunni kemur fram að stefnt sé að því að söluferlinu ljúki innan nokkurra vikna, en nú er unnið að því að meta þau tilboð sem komið hafa og ganga til frekari viðræðna við tilboðsgjafa.

„Enn er óljóst hvert endanlegt söluverðmætið verður og því er enn óljóst hver áhrifin á sölunni verða endanlega,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Eimskip hefur þegar náð samkomulagi við mikinn meirihluta skuldabréfaeigenda allra flokka útgefnum af félaginu um frestun vaxtagreiðslna og afborgana. Félagið sé jafnframt í viðræðum við aðra lánveitendur og hafa viðbrögð lánveitenda almennt verið jákvæð.

„Þegar niðurstaða í söluferlinu á eignum í Norður-Ameríku liggur fyrir verður farið í frekari viðræður við helstu lánveitendur um fjárhagslega endurskipulagningu sem snúa að því styrkja eiginfjárstöðu félagsins og tryggja framtíðarrekstur þess sem skipafélags,“ segir í tilkynningunni.

„Þrátt fyrir erfiða skuldastöðu félagsins og óhagstæð skilyrði á fjármálamarkaði er grunnrekstur félagsins í vel viðunandi horfi og ágætlega hefur gengið að aðlaga rekstur félagsins að þeim samdrætti sem hefur verið í flutningum til landsins. Félagið mun sem fyrr veita viðskiptavinum félagsins trausta og góða þjónustu.“