Einkaneysla virðist heldur vera að rétta úr kútnum ef marka má tölur um kortaveltu, en batinn er þó hægur og langt í land með að neysluútgjöld heimilanna nái svipuðum takti og ríkti misserin fyrir hrun. Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans nam heildarvelta kreditkorta 25,7 milljörðum króna í febrúar síðastliðnum. Er það u.þ.b. 5,5% aukning að raungildi frá sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta jókst um ríflega 22% að raungildi milli ára, en innlend kreditkortavelta jókst um tæp 3% á sama tíma.

Greining Íslandsbanka rýnir í kortaveltuna í Morgunkorni í dag.

Aukning í húsgagna- og raftækjaverslunum

„Samanlögð kreditkortavelta og innlend debetkortavelta einstaklinga gefur góða mynd af þróun einkaneyslu.  Debetvelta í innlendum verslunum reyndist tæplega 2% minni að raungildi í febrúar síðastliðnum en reyndin var í sama mánuði í fyrra. Samanlagt jókst þó kortavelta á framangreindan mælikvarða að raungildi um 2,5% á milli ára. Rímar það við veltutölur úr dagvöruverslun, en samkvæmt nýbirtum tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar jókst velta dagvöruverslana í febrúarmánuði um 2,5% frá sama mánuði í fyrra, mælt á föstu verði. Þá jókst velta í húsgagna- og raftækjaverslunum verulega á milli ára, en fataverslun dróst hins vegar saman á tímabilinu,“ segir í Morgunkorni.

Umsvif heimila svipuð og um miðjan síðasta áratug

Heildarvelta kredit- og debetkorta er nú svipuð og hún var árin 2004-2005, samkvæmt athugun greiningarinnar. „Áhugavert er að rýna í hver kortavelta heimila er að raungildi miðað við það sem verið hefur undanfarin ár. Ef skoðuð er heildarvelta samkvæmt framangreindum mælikvarða (þ.e. öll kreditkortavelta og debetkortavelta í innlendum verslunum) og umreiknuð til gengis og verðlags í janúar árið 2001 kemur upp úr kafinu að veltan er svipuð þessa mánuðina og raunin var árin 2004-2005. Kemur það heim og saman við nýlegar tölu Hagstofu, sem gefa þá niðurstöðu að einkaneysla hér á landi hafi færst aftur til svipaðs stigs og var fyrir 6-8 árum. Þótt velta heimilanna muni væntanlega aukast jafnt og þétt á komandi miserum virðist töluvert langt í að hún nái sviuðum hæðum og siðustu misserin fyrir hrun.“