Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, boðaði „hóflegan vöxt“ útgjalda þegar hann kynnti fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 í gærmorgun, mánuði á eftir áætlun.

Halli var af rekstri ríkissjóðs um 45 milljarða 2023 en auka útgjöld vegna aðgerða vegna Grindavíkur nema 17 milljörðum og 12 milljörðum vegna aðgerða í tengslum við kjarasamninga í ár. Með aðhaldi og öðrum breytingum, sem hafa þó ekki verið útfærðar, verði halli af rekstrinum um 49 milljarða árið 2024.

Líkt og í fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem kynnt var í fyrra er gert ráð fyrir að afgangur verði af rekstri ríkissjóðs árið 2028. Í nýrri áætlun er talið að hallinn verði minni árið 2025 en verði þó meiri en fyrri áætlun gerði ráð fyrir árin 2026 og 2027 og síðan verði minni afgangur af rekstrinum árið 2028.

Rammasett útgjöld í ár skv. fjárlögum 2024 eru 100 milljörðum króna meiri en síðasta fjármálaáætlun, sem birt var í mars 2023, gerði ráð fyrir. Áætlað er að rammasett útgjöld aukist um 89,8 milljarða, eða um 6%, frá fjárlögum 2024 til ársins 2029 á verðlagi ársins 2024. Í fjárlögum 2024 nema rammasett útgjöld 1.491 milljarði en munu nema 1.581 milljarði árið 2029.

Lang mesta aukningin er í útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála en samtals nemur aukning til heilbrigðis- og velferðarmála 80 milljörðum á tímabilinu. Útgjöld til útlendingamála, sem eru þvert á málaflokka, dragast þó saman um ríflega tíu milljarða á næstu fjórum árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.