Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Milestone, segir að ekki liggi fyrir hvort kaupum Wernersbræðra á hlutabréfum í Lyf & heilsu verði rift.

Þau viðskipti séu þó til skoðunar eins og öll önnur viðskipti sem tengist Milestone á undanförnum árum.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í apríl síðastliðnum fór fyrrgreind sala fram í mars 2008 og var kaupverðið ríflega 3,4 milljarðar króna. Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, sagði við Viðskiptablaðið í apríl, að lánardrottnar hefðu ekki gert neinar athugasemdir við söluna.

Samkvæmt gjaldþrotalögum er hægt að rifta gerningi nákominna sem farið hefur fram síðustu 24 mánuði fyrir frestdag, þ.e.a.s. þann dag sem dómara berst krafa um gjaldþrotaskipti.

Milestone, sem áður tilheyrði Wernersbræðrum, er nú í gjaldþrotaskiptameðferð og í Lögbirtingablaðinu er greint frá því að kröfuhafar hafa frest fram til 23. nóvember til að lýsa kröfum í búið.

Áður hefur komið fram að kröfurnar gætu numið um 86 milljörðum króna en samkvæmt áætlunum forsvarsmanna Milestone um nauðasamninga var í mesta lagi gert ráð fyrir að kröfuhafarnir fengju um 5,8% upp í kröfurnar.

Ekki búið að þjóðnýta Staterbank

Ein helsta eign þrotabús Milestone er makedónski bankinn Staterbank en félagið keypti 75% hlut í bankanum í desember 2007 en jók hlutaféð í apríl 2008 og fór með 91% hlut þegar félagið fór í þrot.

Forsvarsmenn Milestone héldu því fram þegar þeir reyndu að leita nauðasamninga fyrr á árinu að færi félagið í gjaldþrotameðferð væru líkur á því að Seðlabankinn í Makedóníu yfirtæki bankann. Þar með myndu þau verðmæti sem í honum fælist tapast.

Það hefur þó enn ekki gerst og eftir því sem næst verður komist stendur til að selja hann sem fyrst.