Litið er á tilboð fjárfestingasjóðsins SF1, sem er í eigu Stefnis verðbréfafyrirtækis Arion banka, í 53% hlut í Sjóvá sem viljayfirlýsingu en ekki kauptilboð. Kaupin hafa ekki verið fjármögnuð. Gert er ráð fyrir að sölunni ljúki fyrir febrúarlok. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, kom fyrir viðskiptanefnd Alþingis í dag þar sem söluferli Sjóvár var rætt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, einn nefndarmanna, segir að Már hafi í mörgum atriðum borið fyrir sig trúnaði. „Það kom þingmönnum á óvart þar sem við höfum rætt hin ýmsu mál í trúnaði. Það er ómögulegt fyrir okkur að sinna eftirlitshlutverki ef við getum ekki fengið upplýsingar frá embættismönnum.“ Í samtali við Viðskiptablaðið í gær sagði Guðlaugur að Már hafi ekki svarað beiðni viðskiptanefndar um að koma á sinn fund í tvo mánuði.

Litið á söluna sem sama ferlið

Guðlaugur Þór segir að á fundinum í dag hafi komið skýrt fram að litið er á söluna nú sem hluta af sama söluferli Sjóvár og hófst í janúar 2010. „Það er athyglisvert í ljósi þess að kaupendur nú ( innsk. blm. SF1) voru hluti af þeim kaupendahóp sem hætti við. Um er að ræða ófjármagnað félag og hefði því ekki komist í gegnum söluferlið í upphafi. Sjóðurinn uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett voru þeim aðilum sem geta keypt Sjóvá,“ segir Guðlaugur Þór. „Það er ljóst að ekki er verið að fara eftir neinum verklagsreglum í þessari einkavæðingu.“

Sölunni á 53% hlut Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) í Sjóvá að ljúka fyrir febrúarlok.

Athugasemdir frá ríkisendurskoðun

Á fundi viðskiptanefndar í dag kom fram að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir er varða skipulag Seðlabankans og ESÍ. Athugasemdir snúa meðal annars að stjórnarformannssetu seðlabankastjóra í ESÍ.

Málefni Sjóvár rædd áfram

Guðlaugur segir að vilji sé fyrir hendi að ræða málið frekar innan viðskiptanefndar. „Það er mitt mat að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið er ferlið ekki opið og gangsætt. Það er verið að ræða við aðila sem geta ekki uppfyllt þau skilyrði sem lagt var upp með.“

Hann segist ekki geta séð hvernig hægt sé að líta á söluna sem eitt ferli. Leikreglur hafi breyst. „Tólf aðilar sóttust eftir að kaupa hlut í Sjóvá. Einn aðili var með langhæsta tilboðið. Þegar það gekk ekki var farið að tala við annan aðila sem ekki er fjármagnaður. Sá aðili fær aðgang að upplýsingum sem aðrir fá ekki.“