*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Fólk 8. apríl 2018 18:02

Eldskírn í Þýskalandi

Hjördís María Ólafsdóttir er nýr markaðsstjóri Heklu, en hún lét drauminn um að fara út í nám rætast og tók fjölskylduna með.

Ritstjórn
Nýr markaðsstjóri Heklu, Hjördís María Ólafsdóttir, ákvað að drífa sig til Þýskalands í nám meðan börnin voru nógu ung til að læra tungumálið í leikskóla, sem gekk ótrúlega vel.
Haraldur Guðjónsson

Hekla hefur ráðið Hjördísi Maríu Ólafsdóttur til að stýra markaðsmálum bílaumboðsins. Hjördís kemur frá Cintamani, en áður hafði hún verið við nám og störf í Þýskalandi, unnið fyrir Ráðstefnuborgina Reykjavík, 66°Norður og fleiri.

„Þetta er yfirgripsmikið starf en nú eru spennandi tímar í bílabransanum með tilkomu vistvænni bíla og aukinnar sjálfvirkni,“ segir Hjördís. „Ég mun stýra birtingu, markaðsetningu og öðru á vörumerkjum Heklu bílaumboðs, en það eru frábærar stelpur sem eru með mér hérna á deildinni.“

Hjördís er gift Bjarka Björnssyni og eiga þau saman stelpu og strák á aldrinum átta og sex ára, en í frítíma sínum nýtur hún þess að stunda útivist, fjallgöngur og skíði. Fyrir um einu og hálfu ári flutti fjölskyldan heim til Íslands en þá höfðu þau búið í um þrjú ár í Þýskalandi þar sem Hjördís hafði farið í MBA-nám við WHU-Otto Beisheim School of Management.

„Það eru þrír viðskiptaskólar í Þýskalandi sem skiptast á að vera best metnir og þetta er einn þeirra. Mig langaði alltaf til að fara út í nám en ákvað að drífa í því þegar ég áttaði mig á að stelpan mín var alveg að fara að byrja í skóla. Ef hún ætti að læra nýtt tungumál væri auðveldara að gera það í leikskóla,“ segir Hjördís.

„Börnin fengu eins konar eldskírn þegar þau mættu í leikskólann þar sem allir töluðu tungumál sem þau kunnu ekki stakt orð í en það gekk samt rosalega vel. Það er ótrúlegt hvað þessi kríli eru snögg að ná tökum á nýju tungumáli.“

Meðan fjölskyldan bjó úti naut hún þess að ferðast um Evrópu og var meðal annars ekið til Hollands, farið á skíði í Austurríki og notið náttúrufegurðar í Rínardalnum. „Það sem var kannski erfiðast fyrir einhvern frá litla Íslandi að venjast er öll formfestan í samskiptum við kennara. Það tók nokkrar vikur fyrir Íslending sem er vanur að segja heyrðu við kennarana heima að muna að ávarpa kennara með tvær doktorsgráður sem prófessor doktor doktor.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.