*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 30. mars 2015 07:33

Elliði: Engir þjóðhagslegir hagsmunir í húfi

Bæjarstjóri Vestmannaeyja er ósáttur við framgöngu FME og segir bæinn kanna lagalega stöðu sína.

Ritstjórn
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Haraldur Guðjónsson

„Það voru engir þjóðhagslegir hagsmunir í húfi. Mér þykir mjög margt skrýtið í framgöngu Fjármálaeftirlitsins, aðeins örfáir dagar voru gefnir í frest en það er kveðið á um það í lögum að fresturinn geti verið allt að sex mánuðir. Þar sem ríkið er einn aðaleigandi að sjóðnum hefði átt að gæta meðalhófs,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, í samtali við Fréttablaðið, en í gær yfirtók Landsbankinn allar eignir og skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja.

Sjóðurinn hafði óskað eftir fresti til að skila Fjármálaeftirlitinu endurskoðuðum ársreikningum fyrir árið 2014 og upplýsti um leið fyrirsjáanlega mikla verðrýrnun á útlánasafni sjóðsins. Fjármálaeftirlitið veitti sjóðnum fjögurra daga frest til að skila ársreikningunum. Elliði segir málefni sjóðsins verða rædd á næsta bæjarstjórnarfundi.

„Ólíkt öðrum eigendum sparisjóðsins erum við stjórnvald. Okkur ber samkvæmt rannsóknarreglu að kynna okkur málið til hlítar og hljótum því að kanna lagalega stöðu okkar,“ segir Elliði.