Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur staðfest að uppi séu hugmyndir um að efla innri stoðir evrusvæðisins, meðal annars með því að stofna sjóð sem myndi starfa með sambærilegum hætti, og getu, og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF).

Nú þegar er byrjað að tala um European Monetary Fund (EMF) en það eru helst Þjóðverjar og Frakkar sem hafa þrýst á um stofnun slíks sjóðs.

Fjölmiðlar í Evrópu fjölluðu um málið sl. helgi og hafði þýska blaðið Welt eftir Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, að hann væri því fylgjandi að koma upp nánara samstarfi evruþjóða sem fæli það í sér að samhæfa stefnumótum í efnahagsmálum, bæði innan Evrópusambandsins (ESB) sem og evrusvæðisins. Þá sagði Schäuble jafnframt að ESB þyrfti á stofnun að halda sem hefði sömu reynslu og getu og IMF.

Vangaveltur um stofnun EMF þurfa svo sem ekki að koma á óvart. Frakkar hafa lengi haft hug á slíkum samstarfsvettvangi og segir blaðið að embættismenn Frakka hafi lengi talað fyrir daufum eyrum og lagt til að ESB kæmi sér upp eigin gjaldeyrissjóði.

En það eru ekki allir sem taka vel í hugmyndina. Þannig hefur Axel Weber, seðlabankastjóri Þýskalands, tekið mjög illa í hugmyndina og segir hana veikja stöðu evrópska seðlabankans.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .