Emirates, eitt stærsta flugfélag Mið-austurlanda, staðfesti í morgun pöntun á 50 nýjum Boeing 777 vélum. Andvirði pöntunarinnar, sem var staðfest á árlegu flugsýningunni í Dubai, er um 18 milljarðar Bandaríkjadala.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal. Til viðbótar þessu mun félagið gera kaupréttarsamning á 11 vélum til viðbótar af sömu tegund.

Emirates er í dag stærsti notandi Boeing 777 vélanna en félagið á nú 94 slíkar vélar. Þess utan átti félagið pantaðar 40 vélar fyrir flugsýninguna í Dubai.

Pöntunin vekur ekki síst athygli í ljósi þess að Emirates á einnig pantaðar 70 Airbus A350 vélar, en vélin verður samkvæmt áætlun tekin í notkun árið 2014. Airbus A350 vélinni er ætlað að keppa fyrst og fremst við Boeing 787 Dreamliner en hún mun einnig keppa við Boeing 777 línuna.