Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, segir að í mörgum tilfellum þeirra sem skuldi sjóðnum hvað mest þá endist fólki ekki starfsævin til að greiða sjóðnum tilbaka það sem það skuldar honum. Þeim einstaklingum sem skulda sjóðnum meira en 12,5 milljónir hefur fjölgað hratt á síðustu fimm árum. Sá hópur skuldar sjóðnum um níu milljarða króna nú en skuldaði árið 2008 sjóðnum um einn milljarð króna. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Um 17% krafna í lánasafni sjóðsins eru afskrifaðar árlega og að sögn framkvæmdastjórans finna starfsmenn sjóðsins fyrir því að fólk eigi erfiðara með að standa í skilum en áður. Það hafi áhrif sem komi fram í auknum afskriftum. Lánasafnið er því að nokkru leyti viðkvæmt fyrir ytri þáttum í samfélaginu og gangi efnahagslífsins.