Endurreisn íslenska bankakerfisins verður ekki að fullu lokið fyrr en viðskiptabankarnir hafa fengið eðlilegan aðgang að al- þjóðlegum fjármálamörkuðum, segir í ársskýrslu Bankasýslunnar. Ýmislegt getur hins vegar tafið þessa vegferð: t.d. gjaldeyrishöftin, tafir á endurskipulagningu „gömlu“ bankanna og forgangur innstæðna.

„Þegar kemur að umræðu um möguleg kjör nýju íslensku bankanna á alþjóðlegum fjármálamarkaði er lykilspurningin hversu mikið ávöxtunarkrafa væntanlegra fjárfesta muni mótast annars vegar af kjörum íslenska ríkisins á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði og hins vegar af kjörum banka með svipað lánshæfismat. Með öðrum orðum, þarf áhættuálag íslenska ríkisins eða evrópskra banka að lækka á sömu mörkuðum áður en fjármögnunarkjör íslenskra banka geta orðið viðunandi á alþjóðamarkaði. Spurningin er mikilvæg, því ef hátt Íslandsálag, frekar en bankaálag, torveldar þeim aðgang að alþjóðlegu fjármagni geta aðgerðir í ríkisfjármálum haft meiri áhrif en ella,“ segir í ársskýrslunni.

Samkvæmt þessu getur það leitt til lækkunar á þessu Íslandsálagi ef ríkið greiðir niður skuldir, t.d. með því fé sem fæst með sölu á bönkum. Það auðveldi svo bönkunum að sækja fé á erlendan markað og miðla því til Íslands.