*

þriðjudagur, 10. desember 2019
Innlent 22. febrúar 2015 12:26

Engar tafir orðið á sæstrengsmáli

Sérfræðingur í orkumálum telur óþarfa drátt hafa orðið á sæstrengsmáli. Ragnheiður Elín Árnadóttir vísar gagnrýninni á bug.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Ketill Sigurjónsson, ráðgjafi á sviði orkumála og MBA frá CBS, segir mikilvægt að iðnaðar- og viðskiptaráðherra beiti sér fyrir auknum samskiptum við Breta og gangi sem fyrst á fund Matthews Hancock, breska orkumálaráðherrans, vegna sæstrengsmálsins sé ætlunin að komast nær niðurstöðu í málinu. Í Viðskiptablaðinu þann 12. febrúar síðastliðinn var greint frá því að orkumálaráðherrann hefði ítrekað áhuga á samstarfi við Íslendinga í málinu í bréfi sem hann sendi Ragnheiði Elínu Árnadóttur þann 24. janúar síðastliðinn.

„Einn grundvallarþáttur í undirbúningi og hagkvæmnismati er að skilja og fá upplýsingar um hvaða orkuverð sé í boði,“ segir Ketill. Það séu upplýsingar sem Bretar einir geti veitt Íslendingum, ásamt hugmyndum um skiptingu arðs af verkefninu, fjármögnun og fleira. „Meðan ekki er gengið í það verk er ekki hægt að komast að neinni ná- kvæmri niðurstöðu,“ bætir hann við. Ketill telur óþarfa tafir hafa orðið á málinu af hálfu stjórnvalda, sem hafi átt að beita sér af meira afli fyrir framgöngu þess. „Þetta er mjög stórt mál, miklu stærra mál en menn átta sig á. Þetta verkefni gæti skilað geysilegum ávinningi og gæti verið bylting fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir hann.

Ótímabært að semja um verð

„Ég hef svarað þessu áður. Við förum ekki að semja um verð, hvorki við Breta né aðra, fyrr en við erum búin að átta okkur á áhrifum af þessu verkefni fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.