Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að enginn ágreiningur væri milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um að auka þurfi gjaldeyrisforða Seðlabankans. Hún vitnaði í ummæli Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra í Morgunblaðinu og benti á að þar hefði hann sagt að undirbúningur væri hafinn en niðurstaðan lægi ekki fyrir.

Þetta kom fram í svari Ingibjargar Sólrúnar við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Valgerður sagði að það væri mikilvægt fyrir þing og þjóð að heyra að ekki væri ágreiningur í þessu mikilvæga mál og að undirbúningur undir það að styrkja gjaldeyrisforðann væri hafinn.

Ingibjörg Sólrún svaraði: „Öllum ætti að vera ljóst að enginn ágreiningur er um það í landinu að mikilvægt er að bankarnir, þegar og ef þeir þurfa á því að halda, geti leitað eftir lausafé til þess aðila sem á að vera lánveitandi til þrautavara sem er Seðlabanki Íslands."

Hún ítrekaði að lánveitandinn til þrautavara væri Seðlabankinn en ekki ríkisstjórnin.

„Seðlabankinn getur farið ýmsar leiðir í því og talað hefur verið um að Seðlabankinn sé m.a. að skoða lánalínur í bönkum erlendis og hvort hægt væri að tryggja þær — hvort sem síðan yrði dregið á þær og þá hvenær. Þetta væri ein leiðin sem hægt væri að fara, önnur leið væri að auka við gjaldeyrisvaraforðann." Þessir hlutir væru allir til skoðunar.