Bein erlend fjárfesting á Íslandi hrundi í kjölfar bankahrunsins. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans nam bein erlend fjárfesting hérlendis 80,7 milljörðum króna árið 2008 en einungis 9,4 milljörðum árið eftir. Frá þessu greinir Vísir en þarna er um 88% samdrátt að ræða.

Einnig kemur fram í hagtölunum að bein fjármunaeign erlendra aðila hérlendis hafi dregist saman um 31,3 milljarða króna á milli áranna 2008 og 2009, úr 1.110 milljörðum króna í 1.078,7 milljarða.