Arion banki auglýsti í Fréttablaðinu í síðustu viku verðbréfasjóði sem fólk getur fjárfest í, þar á meðal erlenda  hlutabréfasjóði. Vegna gjaldeyrishafta er hins vegar  óheimilt að fjárfesta í erlendum verðbréfum.

Flóki Halldórsson,  framkvæmdastjóri  Stefnis, sem er dótturfélag  Arion banka, segir rétt að almennt geti fólk  ekki keypt í erlendum  verðbréfasjóðum vegna  gjaldeyrishafta. Hins  vegar geti þeir sem eiga  erlendar eignir, t.a.m.  erlenda hlutabréfa- og  skuldabréfasjóði, selt þær  eignir og endurfjárfest í  erlendum hlutabréfasjóðum  Stefnis. Endurfjárfestingin  þurfi að eiga sér stað innan tveggja vikna frá  sölu eldri eignar.

„Starfsemi sjóðanna er í grunninn alveg  óbreytt frá því sem var fyrir hrun, fyrir utan þá staðreynd  að nýfjárfesting er mjög takmörkuð vegna ríkjandi  gjaldeyrishafta. Þessi hluti auglýsingarinnar var ætlaður  þessum hópi og til að upplýsa þá sem þegar eiga í þessum  sjóðum um hver ávöxtun síðastliðna tólf mánuði var,“  segir Flóki.