Endanlegt samkomulag hefur náðst milli Orkuveitu Húsavíkur (OH) og breska orkufyrirtækisins Global Geothermal Limited um samvinnu vegna viðgerðar og enduruppbyggingar Orkustöðvar OH á Hrísmóum við Húsavík. A vef Bloomberg í dag segir frá kaupum ástralska félagsins Wasabi Energy á orkustöðinni, en Wasabi Energy er stærsti eigandi Global Geothermal Limited.

Samkvæmt samningum yfirtekur Global Geothermal stöðina á meðan viðgerð á henni fer fram. OH mun síðan leysa stöðina til sín aftur þegar sýnt hefur verið fram á rekstrarhæfni hennar. Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri OH segir í samtali við viðskiptablaðið að með þessum hætti sé reynt að lágmarka fjárhagslega áhættu OH.

Orkustöðin sem um ræðir var sú fyrsta í heiminum til að framleiða rafmagn úr jarðvarma með svokallaðri Kalinatækni, sem Global Geothermal hefur einkaleyfi fyrir. Með tækninni er raforka framleidd með varma frá lághitasvæðinu á Hveravöllum í nágrenni Húsavíkur, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Global Geothermal er kappsmál að raforkuframleiðsla hefjist að nýju í Orkustöðinni og á seinni hluta ársins 2010 fóru Global Geothermal og dótturfyrirtæki þess ítarlega yfir vélbúnað og ágalla stöðvarinnar. Að lokinni ítarlegri úttekt var það mat Global Geothermal að unnt sé að koma Orkustöðinni í fulla vinnslu á ný. Samningar hafa nú náðst um samvinnu fyrirtækjanna við viðgerð og endurbætur stöðvarinnar. Global Geothermal mun yfirtaka stöðina meðan viðgerð fer fram og mun viðgerðarkostnaður verða greiddur af Global Geothermal. OH mun leysa stöðina til sín aftur þegar sýnt hefur verið fram á rekstrarhæfni hennar,“ segir í tilkynningu.

„Við hlökkum til samstarfsins við Global Geothermal en samkomulagið við þá er forsenda fyrir enduruppbyggingu Orkustöðvar Orkuveitu Húsavíkur. Það er trú þeirra að unnt sé að koma stöðinni í rekstur og það verður mikill áfangi þegar það gengur eftir,“ segir Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri OH í tilkynningu.