Evrópusambandið hefur veitt Rannsóknarmiðstöð Háskólans í Reykjavík styrk að andvirði 730 þúsund evra, jafnvirði um 110 milljóna króna, til rannsóknar á hvernig þjónustufyrirtæki geta nýtt upplifun til að skapa sér samkeppnisforskot.

Í fréttatilkynningu frá HR segir að rannsóknin sé samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Háskólans í Nottingham og þriggja þjónustufyrirtækja. Dr. Marina Candi, fræðimaður við HR, leiðir rannsóknina. Um þriggja ára verkefni er að ræða og byggir á hugmynd sem Marina Candi þróaði ásamt dr. Johann Riedel við Háskólann í Nottingham.

Mikil viðurkenning

Styrkurinn er veittur úr rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins en meginmarkmið þeirra er að styðja við rannsóknir vísindamanna í fremstu röð. Í tikynningu HR segir að aðeins brot umsókna hljóti náð fyrir augum dómnefndar en árlega berast þúsundir umsókna. Styrkurinn er því mikil viðurkenning fyrir þá sem að koma.

Dr. Friðrik Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar HR, segir styrkinn mikla viðurkenningu fyrir Marinu Candi og Rannsóknarmiðstöð skólans í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.