Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) varar við þeirri aukinni hættu sem að sænskum bönkum stafar vegna niðursveiflu í Eystrasaltsríkjunum.

Sænskir bankar hafa verið fyrirferðarmiklir í bankastarfsemi í Eistlandi, Lettlandi og Litháen, og hefur hlutfallslegt vægi landanna farið ört vaxandi fyrir starfsemi bankanna, en 20-35% af heildartekjum SEB og Swedbank koma frá Eystrasaltslöndunum.

Í ársskýrslu IMF um efnahagshorfur í Svíþjóð segir sjóðurinn að það muni draga úr hagvexti á þessu ári og því næsta. Hagkerfið ætti að taka við sér á seinni helmingi ársins 2009 - en það mun hins vegar mikið velta á þróuninni í bankageiranum.

IMF spáir 2% hagvexti á þessu ári - borið saman við 2,7% árið á undan - og 1,7% árið 2009.

„Ef ástandið á fjármagnsmörkuðum færist í eðlilegt horf og Eystrarsaltsríkjunum tekst að ná mjúkri lendingu í efnahagslífinu, ætti stöðug útlánaaukning bankanna að styðja við hagvöxt,“ að mati IMF.

Á hinn bóginn gæti „áframhaldandi umrót á fjármálamörkuðum, lækkandi húsnæðisverð í Svíþjóð eða versnandi efnahagsaðstæður í Eystrasaltslöndunum,“ valdið því að hagvöxtur í Svíþjóð yrði minni en spá IMF gerir ráð fyrir. Aftur á móti segir sjóðurinn langtímahorfur  sænska hagkerfisins vera góðar.

Þrátt fyrir að sænskir bankar hafi lítið sem ekkert fjárfest í skuldabréfavafningum með tengsl við bandarísk undirmálslán, þá eru þeir hins vegar sérstaklega berskjaldaðir fyrir niðursveiflu í Eystarsaltslöndnunum, að sögn IMF. Vaxandi útlánaáhætta í löndunum hafi leitt til þess að bankarnir hafi dregið úr útlánavexti sínum. Sú ákvörðun felur í sér ákveðna áhættu vegna þess að það gæti „grafið undan hagnaði og eignum sem bankarnir eru að reyna að vernda.“

Á sama tíma hefur fjármögnun orðið erfiðari og kostnaðarsamari.

Sænsku bankarnir SEB og Swedbank eru með ráðandi stöðu á bankamarkaði í Eistlandi, Lettlandi og Litháen, - samtals nema útlán þeirra 50-75% af heildarútlánum í löndunum þremur - en hagvöxtur þar hefur dregist hratt saman og verðbólga að sama skapi hækkað mikið.

Þrátt fyrir að forsvarsmenn SEB og Swedbank hafi fullvissað IMF um að eiginfjárvarnir bankanna væru nægjanlega öflugar til að standast veruleg áföll, þá telur sjóðurinn engu að síður hættu vera fyrir hendi. Af þeim sökum ættu bankarnir, að mati IMF, að nýta sér þá sterku stöðu sem þeir njóta um þessar mundir, og efla úrræði til þess að draga úr áhættuþættum í fjármálakerfinu.

Þetta megi meðal annars gera með því að auka eiginfjárhlutföll og endurskoða lausafjárstöðu bankanna, auk þess sem IMF hvetur sænsk yfirvöld til að ráðast í endurbætur á ófullnægjandi reglugerðarverki um starfsemi fjármálastofnanna.