*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 22. janúar 2016 14:45

FA og VR undirrita kjarasamning

Félag atvinnurekenda undirritaði í dag nýjan kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna.

Karl Ó. Hallbjörnsson
Aðsend mynd

Félag atvinnurekenda (FA) undirritaði í dag kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV). Kjarasamningurinn er í aðalaðtriðum eins og samningur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins sem undirritaður var í gær á grundvelli SALEK-samkomulagsins.

Samningurinn gerir ráð fyrir meiri launahækkun en áður hafði verið samið um. Launaþróunartrygging fyrir árið 2016 fellur brott, en í stað hennar kemur 6,2% almenn launahækkun þann 1. janúar 2016, sem nemur að lágmarki 15 þúsund króna hækkun mánaðarlauna í dagvinnu.

1. maí á næsta ári verður almenn launahækkun 4,5% í stað 3% og í maí 2018 verður launahækkun þá 3% í stað 2%. Þá hækkar framlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð samkvæmt samningnum um 0,5% frá 1. júlí næstkomandi, um 1,5% til viðbótar frá 1. júlí 2017 og 1,5% frá 1. júlí 2018 - samtals um heil 3,5 prósentustig.

Í fréttatilkynningu FA segir að stefnt sé að því að gera sambærilega samninga við aðra samningsaðila FA innan ASÍ - Rafiðnaðarsambandið og Grafíu. 

Stikkorð: VR Kjarasamningar LÍV FA SALEK