Gengi bréfa Facebook hefur lækkað um 14,14% það sem af er degi í kauphöllinni í New York og hefur gengið ekki verið lægra frá því að Facebook var skráð á markað í maí síðastliðnum. Skráningargengið var 38 dalir á hlut, en gengið stendur nú í rétt rúmum 23 dölum. Hefur það því lækkað um ein 39,4% frá þeim tíma.

Í gær greindi fyrirtækið frá því að það hefði tapað 157 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir að tekjur hefðu aukist um 32% í fjórðungnum. Fjöldi fólks sem notar Facebook á snjallsímum og spjaldtölvum hefur aukist til mikilla muna, en fyrirtækinu hefur ekki tekist að sýna fram á hvernig það hyggst hagnast á þessari breytingu á notendahópnum.