Facebook hefur breytt reglum þannig að unglingar fái óheftari aðgang að notkun samskiptasíðunnar vinsælu. Hingað til hafa unglingar á aldrinum 13-17 ára einungis getað deilt færslum sínum með vinum vina. Þeir geta hins vegar hér eftir deilt skilaboðum eða myndum með hverjum sem er.

Aftur á móti verður fyrsti valmöguleikinn fyrir unglinga á þessum aldri sá að deila færslum eða myndum með vinum sínum. Hingað til hefur fyrsti valmöguleikinn verið vinir vina.

Með þessari breytingu er facebook að reyna að bregðast við síauknum vinsældum nýrra samfélagsmiðla sem veita Facebook harða samkeppni um yngstu tölvunotendurna. Þar á meðal er Snapchat.