Sala á leikjatölvurnar Wii U frá Nintendo hafa ekki staðið undir væntingum stjórnenda fyrirtækisins, ef marka má afkomutilkynningu frá Nintendo. Fyrirtækið greindi frá því í dag að gert sé ráð fyrir 25 milljarða jena tapi á síðasta ári í stað 55 milljarða jena hagnaðar eins og búist var við í fyrravor. Ef tölurnar eru færðar yfir á íslenskar krónur merkir þetta að Nintendo geri ráð fyrir því að tapa jafnvirði 28 milljarða íslenskra króna í stað þess að hagnast um 60 milljarða. Til samanburðar hagnaðist Nintendo um 7,1 milljarð japanskra jena árið 2012.

Wii U-leikjatölvan kom á markað árið 2012 og hljóðuðu spár upp á að níu milljónir tölva myndu renna úr smiðjum fyrirtækisins til loka rekstrarársins 2013, sem lýkur í mars á þessu ári. Raunin er hins vegar sú að 2,8 milljónir tölva hafa selst á tímabilinu.

Í tæknitímaritinu PC World segir að stjórnendur Nintendo geti ekki kennt dræmri sölu á leikjatölvum um slakt gengi. Því til staðfestingar hafi Sony selt rúmlega 4,2 milljón eintök af leikjatölvunni PlayStation 4 síðan græjan kom á markað fyrir áramót. Þá hefur Microsoft selt rúmlega 3 milljónir eintaka af leikjatölvunni Xbox, sem sömuleiðis kom á markað í fyrra.