Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur stofnað ráðgjafahóp til að fara í saumana á faglegum þáttum í starfsemi einkarekinna læknastofa og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefur.

Farið er í þessa vinnu í kjölfar margvíslegra álitaefna sem komið hafa upp í tengslum við innflutning og notkun frönsku PIP brjóstpúðanna

Ráðgjafahópurinn á að athuga einkarekna heilbrigðisþjónustu og hvernig öryggi sjúklinga verður best tryggt. Magnúsi Péturssyni ríkissáttasemjara hefur verið falin verkstjórn yfir starfi ráðgjafahópsins en ásamt honum eru í hópnum þau Garðar Garðarsson, Guðmundur Sigurðsson og Kristín Kalmansdóttir.

Þau munu fyrst fara yfir þá þætti einkarekinnar heilbrigðisþjónustu þar sem mest reynir á öryggi sjúklinga. Því verður byrjað á starfsemi einkarekinna læknastofa en svo athugað hvort víkka eigi verkefnið út svo athugunin nái til fleiri rekstraraðila.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.