Tvær viðurkenningar úr Verðlaunasjóði iðnaðarins voru veittar við hátíðlega athöfn í dag. Það voru Eyjólfur Friðgeirsson, líffræðingur í Íslensk hollusta og Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður í Farmers Market sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni.  Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra afhenti hvorum um sig eina milljón króna, verðlaunagrip og viðurkenningarskjal. Verðlaunagripurinn heitir Hjólið og er tákn mannsins fyrir uppgötvun, framfarir og virkni segir í tilkynningu.

Íslensk hollusta ehf. (áður Hollusta úr hafinu) er félag sem Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingur stofnaði árið 2005 til að þróa og framleiða hollustufæði. Það hefur sett á markað hátt í tvo tugi vara: jurtate, krydd, sósur, osta, snakk, kryddlegin söl, berjasaft og baðefni.

Vörurnar eru neytendavænar og í háum gæðaflokki. Mikill og stóraukinn áhugi er á framleiðslu fyrirtækisins ekki síst meðal hótelrekenda og ferðamanna. Hugmyndafræði fyrirtækisins er skýr: Að nýta þær auðlindir sem finnast í íslenskri náttúru til manneldis og heilsubótar. Leiðarljós Eyjólfs er að nota hrein íslensk náttúruefni og láta þau njóta sín í eigin ferskleika og einfaldleika. Hann safnar hráefninu í vörurnar hérlendis og beinir með starfi sínu athygli að því að í náttúran sjálft er meiri matarkista en margur hyggur og stuðlar jafnframt að því að endurvekja þjóðlega íslenska matargerð.

Nýta náttúrulegt hráefni

Hönnunarfyrirtækið Farmers Market var stofnað haustið 2005 af hjónunum Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni. Bergþóra hannar allar vörur fyrirtækisins, en hugmyndafræðin byggir á að nýta náttúruleg hráefni með sérstaka áherslu á íslensku ullina til að gera vörulínu af fatnaði og fylgihlutum sem hafi sterka skírskotun í íslenska arfleið og menningu. Hönnun Bergþóru undir merkjum Farmers Market  hefur  vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis og  eru nú vörur þeirra  í sölu í hönnunar- og tískuverslunum í 12 löndum,  m.a. í  borgum eins og Tokyo, Berlín, Madríd, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, New York og París. Á síðasta ári voru notuð um 10 tonn af íslenskri ull í vörulínuna. Heimasíða: farmersmarket.is