„Það kann að vera að engin mörk séu á því hvað evrópski seðlabankinn er tilbúinn að gera, en það eru mjög augljós mörk á því hvaða áhrif magnbundin íhlutun getur og mun hafa,“ sagði Axel Weber, stjórnarformaður UBS bankans og fyrrverandi seðlabankastjóri Þýskalands, á fundi World Economic Forum í Davos í Sviss.

„Vandinn er sá að peningastefnan er að stórum hluta búin að gera það sem hún getur gert.“

Ummæli Webers komu aðeins degi eftir að seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, Mario Draghi, gaf sterklega til kynna að til greina kæmi að auka enn íhlutun seðlabankans í hagkerfi Evrópusambandsins á næsta fundi bankastjórnarinnar í mars. Í síðustu viku hélt seðlabankinn stýrivöxtum sínum óbreyttum þrátt fyrir frekari lækkanir á olíumarkaði og aukinn ótta varðandi hagvöxt í Kína.

Segja má að Weber hafi verið að slá á afar svipaða strengi og hann gerði í Davos í fyrra. Þá sagði hann að hann að ef ekki yrðu gerðar grundvallarbreytingar á hagkerfum margra Evrópusambandsríkja væri framtíð evrunnar í hættu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.