Það er fátt sem sameinar Íslendinga í dag. Þeir sameinast þó um gagnrýni á fjármálakerfið og Fjármálaeftirlitið (FME), sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, í ávarpi sínu á aðalfundi FME í dag. Hann sagði síðustu ár hafa einkennst af því að of mikið sé horft til baka. Til dæmis hafi störf skilanefnda, sem líti í eðli sínu til baka, tekið mikið rúm í umræðunni.

Árni Páll hóf mál sitt á að benda á öfgakenndar sviptingar í viðhorfi útlendinga gagnvart Íslandi. Það hafi best komið í ljós á „heimsleikum hagfræðinga í Hörpu“, og vísaði þar til ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, stjórnvalda og Seðlabanka Íslands. Árið 2008 var Ísland talið besta dæmið um efnahagskreppuna. Nú líti erlendir sérfræðingar öðrum augum á landið, og nefnt sem dæmi um hvar vel hefur tekist til. Ísland hafi forðað sér frá gjaldþroti, og nú sé fylgst með stærri ríkjum.

Hann sagði verkefni fjármálakerfisins að endurheimta traustið. Til þess verði lagt aukið fé til Fjármálaeftirlitsins. Grundvallarforsenda afnáms hafta og opins viðskiptalífs sé trú á FME. Stofnunin sé nú í breytingarferli og verði það áfram.