Facebook hefur samþykkt að greiða 106 milljónir evra, eða um 17 milljarða króna, í afturvirka skatta í Frakklandi til að ná sáttum vegna tekna sem það aflar í landinu. Greiðslan nær yfir starfsemi samfélagsmiðilsins í Frakklandi frá árinu 2009. Facebook hefur einnig samþykkt að greiða 8,5 milljónir evra í tekjuskatt fyrir árið 2020 sem er um helmingi meira en það greiddi árið 2019.

„Við greiðum skattana sem við skuldum á hverjum markaði sem við störfum á,“ hefur BBC eftir talskonu Facebook. „Við tökum skattaskyldum okkar alvarlega og vinnum náið með skattayfirvöldum víðs vegar um heiminn til að tryggja fylgni við öll viðeigandi skattalög og til að leysa allar deilur líkt og við höfum gert með frönskum skattayfirvöldum.“

Facebook sagðist hafa breytt söluferli sínu árið 2018 svo að tekjur frá auglýsendum í Frakklandi séu skráðar í landinu. Netrisinn greiddi 38% skatthlutfall árið 2019, samkvæmt heimildum BBC. Það er hærra en hið lögbundna 33,3% tekjuskatthlufall.

Aðrir tæknirisar líkt og Google, Apple og Amazon hafa  gert sambærilega samninga við frönsk skattayfirvöld.