Nýherji hefur fært öllum íslenskum keppendunum, sem halda á Ólympíumót fatlaðra í Peking í Kína, Canon Ixus myndavélar.

Samkvæmt tilkynningu var markmiðið með gjöfinni að gera keppendum mögulegt að fanga þann stórviðburð sem Ólympíumótið er. Þá fengu keppendur einnig minniskort fyrir myndavélarnar svo þeir eigi þess kost að taka eins margar myndir frá ferðinni og kostur er.

Ólympíumót fatlaðra hefst 6. september í Kína. Íslendingar eiga tvo fulltrúa í frjálsíþróttum, tvo í sundi og einn lyftingamann.

„Við erum full tilhlökkunar til ferðarinnar og keppninnar. En þrátt fyrir mikinn keppnisanda ætlum við einnig að njóta þess að vera hluti af jafn stórum leikum og Ólympíuleikar fatlaðra eru og viljum taka með okkur góðar minningar heim. Gjöfin frá Nýherja mun því án ef koma keppendum í góðar þarfir því þeir munu eflaust taka myndir af hvort öðru, borginni og keppninni eins og kostur er,” segir Jón Björn Ólafsson hjá Íþróttasambandi fatlaðra í tilkynningunni.