Erlendir ferðamenn virðast ekki jafn spenntir fyrir íslensku lambakjöti eins og nautakjöti. Að mati Þórarins Inga Péturssonar hefur ekki tekist nægilega vel að kynna íslenskt lambakjöt fyrir erlendum ferðamönnum. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu.

Samkvæmt nýjum tölum eru um tvö þúsund tonn af lambakjöti óseld frá síðustu slátrun, samanborið við 1.750 tonn í fyrra. Mikið hefur verið rætt um skort á íslensku nautakjöti, m.a. vegna mikillar eftirspurnar ferðamanna, en sama er ekki uppi á teningnum í lambakjötinu.

Þórarinn segir í samtali við Fréttablaðið í dag að það sé áhyggjuefni hversu lítinn áhuga ferðamenn virðist hafa á lambakjöti. Hann segir að ekki hafi verið staðið nægilega vel að markaðssetningu og vöruþróun og sláturleyfishafar verði að hugsa dæmið upp á nýtt.