Þrjú stærstu olíufélög landsins hafa undanfarið gengið í gegnum þó nokkrar breytingar. Líkt og áður segir runnu N1 og Olís inn í smásölurisana Festi og Haga, auk þess sem Skeljungur hefur einnig verið að hasla sér völl á smásölumarkaðnum með kaupum á Basko. Þá er Costco hluti af stóru alþjóðlegu heildverslunarveldi. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, telur ólíklegt að Atlantsolía feti í fótspor samkeppnisaðilanna.

„Við höfum alltaf haft sterka sýn á það hver við erum og hvernig við gerum hlutina; við erum olíufélag sem selur bensín og dísilolíu. Við höfum hingað til ekki verið að horfa til þess að ætla að gera og selja nánast allt. Við höfum frekar viljað einblína á það sem við erum góð í og að bæta okkur enn frekar þar. Ég á ekki von á öðru en að við höldum áfram að einblína á þessa sömu hluti og ég sé engar stórkostlegar U-beygjur í kortunum í þeim efnum."

Þú útilokar því að Atlantsolía verði hluti af einhvers konar smásöluveldi?

„Það er ekkert slíkt í spilunum og okkar styrkleiki felst í smæðinni og þessum fókus okkar á að bjóða viðskiptavinum upp á gott verð á vel staðsettum stöðvum. Við erum ekki að eltast við að verða einhverjir risar og markmiðið okkar er fyrst og fremst að standa okkur vel í því sem við erum að gera.

Það eru tveir þættir sem skiptir fólk mestu máli við val á bensínstöðvum; verð og staðsetning. Við erum mjög ólík hinum olíufélögunum - við erum minna félag og bjóðum einungis upp á sjálfsafgreiðslustöðvar. Í því felst okkar sérstaða á markaðnum en það getur verið mjög erfitt að aðgreina sig á þessum markaði. Við reynum að einfalda kaup fólks á þeirri vöru sem við seljum og höfum í þeim efnum kynnt nýjungar í gegnum tíðina eins og dælulykilinn og tölvupóstskvittanir.  Það skiptir líka mjög miklu máli að kerfin okkar virki þar sem um sjálfsafgreiðslu er að ræða og þar búum við að öflugri tæknideild.  Auk þess erum við mjög sveigjanleg, boðleiðir eru stuttar og við leggjum mikið upp úr háu þjónustustigi. Það kann að hljóma undarlega þar sem við erum bara með sjálfsafgreiðslustöðvar, en ef eitthvað kemur upp á og fólk þarf að hafa samband við okkur leggjum við áherslu á að fólk fái sitt mál afgreitt helst strax í fyrsta símtali. Framlínan okkar er mjög sterk og við viljum að fólk upplifi að það sé að fá topp þjónustu þegar það er í samskiptum við okkur. Við tökum okkur samt ekki of hátíðlega og reynum að ná til fólks með því að framleiða skemmtilegt markaðsefni þar sem við gerum gjarnan létt grín að okkur sjálfum og þessum markaði sem stundum tekur sig full alvarlega og hefur sú lína náð vel til fólks og auglýsingarnar okkar vakið athygli. Við höfum í gegnum tíðina byggt upp dyggan og sterkan viðskiptavinahóp sem við metum mikils og erum mjög þakklát fyrir."

Nánar er rætt við Guðrúnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .