*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Erlent 11. janúar 2020 13:01

Fimmti hver seldur bíll rafbíll 2025

Því er spáð að rafbílaframleiðsla Evrópu muni sexfaldast næstu fimm ár í fjórar milljónir á ári vegna nýrra reglna.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Tegundum rafbíla í boði mun fjölga verulega á næstunni vegna nýrra Evrópureglna. Greiningaraðilar spá örum vexti rafbílaframleiðslu næstu ár, ásamt því að evrópskir framleiðendur verði orðnir sjálfum sér nægir um rafhlöður innan fárra ára, sem hingað til hefur hamlað þeim.

Nú um áramótin tóku gildi Evrópusambandsreglur sem kveða á um að meðalútblástur allra seldra bíla frá hverjum bílaframleiðanda megi ekki vera yfir 95 grömmum af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, að viðurlagðri 95 evru sekt fyrir hvert gramm yfir hámarkinu, á hvern seldan bíl innan Evrópusambandsins.

Fyrst um sinn verða þó ýmsar tilslakanir. Þau 5% seldra bíla sem menga mest verða ekki talin með, og rafbílar undir 50g/km munu telja tvöfalt. Þá verður bílaframleiðendum leyft að skipa sér í hópa, sem þá verða taldir saman sem einn framleiðandi. Sú heimild verður varanleg, en hinar eftirgjafirnar verða hægt og rólega afnumdar yfir nokkur ár.

Áhrif hinna nýju reglna eru talin verða veruleg á komandi árum; bílaframleiðendur eru þegar farnir að keppast við að hanna rafbíla sem líta munu dagsins ljós á þessu og næstu árum. Umhverfissamtökin Transport & Environment spá því að yfir milljón svokallaðir snúrubílar (hreinir rafbílar og tengiltvinnbílar, sem eiga það sameiginlegt að hægt er að hlaða þá með snúru) verði seldir í Evrópu á þessu ári, sem er fjórföldun frá 2018.

Endanlegar sölutölur fyrir árið 2019 liggja ekki fyrir, en á fyrri árshelmingi seldust um kvartmilljón snúrubílar. Hugveitan IHS Markit spáir því að áður en árið er úti muni úrval rafbíla hafa tvöfaldast, og um það bil fjórfaldast frá því sem nú er árið 2025, en þá verði um 330 ólíkar tegundir í boði.

Hugveitan spáir því enn fremur að rafbílaframleiðsla muni hafa sexfaldast árið 2025 frá því sem var 2019, og nema um fjórum milljónum bíla, eða fimmtungi markaðarins, sem muni meira en duga til að uppfylla skyldur framleiðenda samkvæmt hinum nýju reglum.

Eitt helsta vandamál evrópskra framleiðenda við að auka rafbílaframleiðslu hefur verið rafhlöðuframleiðsla, en IHS Markit spáir því að frá og með árinu 2023 muni rafhlöðuframleiðsla Evrópu duga fyrir alla rafbíla framleidda þar, en samanlagt muni geymslugeta framleiddra rafhlaðna nema um 130 gígavattstundum það ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Rafbílar