Starfsmenn Vodafone hófu árið 2013 með starfsmannaráðstefnu á fyrsta vinnudegi ársins, 2. janúar. Þar var farið yfir árið framundan og árangur undanfarinna ára skoðaður, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu um ráðstefnuna. Meðal fyrirlesara var Susan Ershler og fjallaði hún um markmiðasetningu.

Susan starfaði lengi í fjarskiptageiranum, meðal annars sem stjórnandi hjá Verizon. Hún er fjallgöngukona og hefur meðal annars klifið hæstu fjalltinda allra heimsálfanna sjö ásamt eiginmanni sínum. Þau voru fyrst hjóna til að ná þeim árangri.

Benda má á að Viðskiptablaðið fjallaði um Ómar Svavarsson, forstjóra Vodafone, í desember sl. og greindi frá áhuga hans á fjallgöngu. Síðastliðið sumar leiddi hann hóp starfsmanna upp Kazbek-fjall, þriðja hæsta fjall Georgíu.