Í nýsköpunar- og framleiðslustarfsstöð Marel í bænum Boxmeer í Hollandi eru nú samankomnir 100 fjárfestar alls staðar að úr heiminum til að hlýða á lykilstjórnendur fyrirtækisins flytja erindi um vöxt félagsins frá sprotafyrirtæki til leiðtoga á sínu sviði á heimsvísu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur gengi bréfa Marel hækkað mikið frá áramótum, en þá tók Árni Oddur Þórðarson forstjóri þess við viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar . Ræddi hann einnig um vöxt og framtíðarsýn fyrirtækisins í ítarlegu viðtali í Áramótum , sem gefið var út að því sama tilefni.

Á fundinum er einnig farið yfir markaðshorfur, lykiltölur úr rekstri félagsins, viðskiptamódel og vaxtarstefnu þess. Í glærusýningu sem Árni Oddur notar í kynningunni kemur meðal annars fram að heimsmarkaðurinn fyrir dýraprótein er 1.200 milljarðar evra, þar af er markaðurinn fyrir vinnslukerfi fyrir þau 12 milljarðar evra.

Tekjur Marel á síðasta ári námu hins vegar 1,2 milljörðum evra, svo vaxtarmöguleikarnir séu miklir. Jafnframt hafi félagið sterka sögu vaxtar, frá 45 starfsmönnum og 6 milljón evra tekjum árið 1992 í þá yfir 6 þúsund starfsmenn sem nú sé. Í haust stefnir Marel á tvíhliða skráningu í kauphöllinni í Amsterdam í Hollandi, en talað var um innan níu mánaða í byrjun marsmánaðar.