Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur sameiginlega lagt fram frumvarp um rýmri heimildir lífeyrissjóða til fjárfestingar. Frumvarpið er byggt á frumvarpsdrögum sem Kauphöll Íslands hf. gerði. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í dag.

Verði lagafrumvarpið samþykkt þá mun lífeyrissjóðum verða veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað.

Í greinargerðinni segir að auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á markaðstorgum fjármálagerningu myndu fjölga þeim fjárfestingarkostum sem lífeyrissjóðum standa til boða og auka fjölbreytileika og áhættudreifingu í eignasöfnum þeirra með því að gera þeim kleift að fjárfesta í auknum mæli í smáum og meðalstórum fyrirtækjum innan trausts ramma.

„Að sama skapi fæli breytingin í sér bætt aðgengi slíkra fyrirtækja að fjármagni sem stuðlar að auknum fjárfestingum og hagvexti til lengri tíma. Hagur lífeyrissjóðanna er mjög háður langtímahagvexti enda er aukin verðmætasköpun forsenda þess að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar,“ segir í greinargerðinni.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur um langt skeið kallað eftir því að heimildir lífeyrissjóðanna til fjárfestinga yrðu rýmkaðar. Nauðsynleg forsenda fyrir vexti FirstNorth markaðarins í Kauphöll Íslands væri til dæmis að lífeyrissjóðirnir gætu fjárfest á þeim markaði.